Smásala í Englandi drógst saman um 4,7% í apríl síðastliðnum miðað við sama verslunarrými á milli ára. Með auknu verslunarrými var samdrátturinn 1,3% segir í frétt Viðskiptablaðsins í dag. Á vefsíðu Retail Week í gær, kemur fram að margir óttast kreppu í smásöluversluninni.

Sameiginlegar tölur frá samtökum breskra smásala (BRC) og KPMG sýna að samdrátturinn nær yfir alla tegundir verslunar, en þó fyrst og fremst í öðru en nauðsynjavöru. Það eru ekki síst dýrari vörur og þá sérstaklega heimilistæki og húsgögn sem hafa selst minna en áður.

Retail Week hefur það eftir Kevin Hawkins, framkvæmdastjóra BRC að sölutölurnar í apríl (miðað við sama verslunarrými) séu þær verstu í tíu ár. Samdrátturinn er fyrst og fremst rakinn til óvissu vegna þingkosninganna í liðinni viku og ótta neytenda við hækkandi vexti.