Hrein ný útlán frá innlánastofnunum til fyrirtækja hafa dregist töluvert saman það sem af er þessu ári. Í nýjum tölum sem Seðlabankinn birti í morgun yfir hrein ný útlán bankakerfisins kemur fram að á fyrstu átta mánuðum ársins fengu fyrirtæki ný hrein lán upp á um 82,6 milljarða króna. Á sama tíma í fyrra námu hrein ný útlán 172,4 milljörðum króna og er því um rétt tæplega 90 milljarða samdrátt að ræða eða um 52%. Þess ber að geta að hrein ný lán eru ný lán að frádregnum uppgreiðslum.

Nýjar hreinar lánveitingar á síðustu 12 mánuðum til loka ágústmánaðar nema um 118,9 milljörðum króna en voru um 242,2 milljarðar á sama tímabili fyrir ári síðan. Þá var sérstaklega mikil munur á nýjum lánveitingum í ágústmánuði en þær námu 5,9 milljörðum í ágúst í ár en námu 37,6 milljörðum í sama mánuði í fyrra og var því 31,7 milljarða munur á milli mánaða.

Það sem af er ári hafa nýjar hreinar lántökur heimilanna numið um 93,6 milljörðum króna miðað við 100 milljarða á sama tímabili í fyrra. Nýjar hreinar lánveitingar til heimilanna á síðustu 12 mánuðum til loka ágústmánaðar nema um 149,2 milljörðum króna sem er nær sama upphæð og á sama tímabili fyrir ári síðan.