Hagnaður Atorku Group, móðurfélags, fyrir skatta fyrstu sex mánuði ársins var 4,9 milljarðar króna samanborið við 418 milljónir króna á sama tímabili í fyrra segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Á öðrum ársfjórðungi 2006 var afkoma fyrir skatta 1.041 milljónir króna samanborið við 241 milljón króna tap á öðrum ársfjórðungi 2005.

Arðsemi eigin fjár móðurfélags á ársgrundvelli var 95%.

?Afkoma Atorku á fyrri árshelming ársins var góð sérstaklega sé tekið mið af ytri aðstæðum á hlutabréfamörkuðum. Hagnaðurinn hefur aukist verulega m.v. sama tímabil í fyrra og umsvif Atorku í fyrirtækjaverkefnum hafa aukist verulega og eru í dag tæplega 80% af eignasafninu. Verkefnastaða Jarðborana er góð og hefur borinn sem keyptur var fyrr á árinu verið tekinn í notkun. Promens hefur vaxið verulega á árinu með frekari fyrirtækjakaupum auk þess sem félagið vinnur að samþættingu og hagræðingu sem á að skilja félaginu góðum afkomubata á næstu misserum. Á síðustu mánuðum hefur verið unnið að sameiningum og endurskipulagningu á þeim félögum sem tilheyra heilbrigðis- og fyrirtækjamarkaði og eftir þær breytingar eru félögin betur í stakk búin til þess að efla markaðssókn og vaxa. Atorka mun horfa til nýrra verkefna á næstu misserum auk þess að halda áfram að styðja við frekari vöxt þeirra félaga sem í dag eru í eignasafni félagsins. Á næstu 6-12 mánuðum má vænta þess að Atorka muni stefna að því að ljúka a.m.k. einu fyrirtækjaverkefni en það getur til að mynda verið með skráningu, sölu eða sameiningu við stærra félag. Atorka mun horfa í auknum mæli til nýrra fjárfestinga í félögum sem starfa á vaxtarmörkuðum sem tengjast hnattrænni þróun," segir Magnús Jónsson forstjóri Atorku í tilkynningu félagsins.