Hagnaður Landsvirkjunar eftir skatta og fjármagnsliði nam 193 milljónum Bandaríkjadala (24,4 ma.kr. á núverandi gengi) fyrir árið 2009, samanborið við 344,5 milljóna dala tap á árinu áður.

Hagnaður félagsins eftir skatta og fjármagnsliði (EBITDA) nam tæpum 272 milljónum dala, samanborið við 297 milljónir dala árið áður.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá Landsvirkjun.

Rekstrarhagnaður félagsins dregst þó saman á milli ára og nam 157,3 milljónum dala á síðasta ári, samanborið við 191 milljón dala árið áður. Handbært fé frá rekstri eykst á milli ára og nam í lok árs 2009 197 milljónum dala, samanborið við 184 milljónir dala árið áður.

Eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar nam í lok árs 2009 32,6%, samanborið við 29,8% árið áður en eigið fé félagsins er tæpur 1,6 milljarður dala.

Verulega dregur úr fjárfestinum á milli ára en á árinu 2009 námu fjárfestingar félagsins 120,5 milljónum dala, samanborið við 374,8 milljónir dala á árinu 2008. Það sama gildir um rannsóknir og þróun en útgjöld til þeirra námu 23,6 milljónum dala á árinu 2009, samanborið við 48,4 milljónir dala árið áður.

Heildareignir Landsvirkjunar aukast á milli ára og nema 4,8 milljörðum dala, samanborið við 4,6 milljarða dala árið áður. Skuldir félagsins breytast þó lítið á milli ára og nema 3,2 milljörðum dala árið 2009.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að rekstrartekjur lækkuðu um 152,2 milljónir dala á milli áranna 2008 og 2009 sem skýrist  einkum af lægra orkuverði til álfyrirtækja vegna lækkunar á álverði á heimsmarkaði auk þess sem tekjur af orkusölu á innlendum markaði lækkuðu á milli ára í Bandaríkjadölum vegna lækkunar á gengi íslensku krónunnar.

Þá kemur fram að tekjufærðar innleystar áhættuvarnir tengdar álverði námu 42,5 milljónum dala en árið á undan nam gjaldfærsla vegna slíkra áhættuvarna 54,8 milljónum dala. Að teknu tilliti til áhættuvarna nemur lækkun tekna frá fyrra ári 54,9 milljónum dala.