Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) af reglulegri starfsemi á fyrri helmingi ársins 2009 var 491 milljónir króna, samanborið við 2.519 milljóna króna tap á sama tímabili í fyrra. Hagnaður af vátryggingastarfsemi var 27 milljónir króna fyrir skatta samanborið við 29 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá TM en eins  og sést er verulegur viðsnúningur á reglulegri starfssemi félagsins eða aukning um rúma tvo milljarða. Eigið fé nam 8, milljörðum króna og eiginfjárhlutfall var 28% þann 30. júní 2009.

Samkvæmt tilkynningunni jukust eigin iðgjöld um 5% og voru 4,5 milljarðar króna samanborið við 4,3 milljarðar á sama tíma í fyrra. Eigin tjónakostnaður lækkaði um 6% og var 4,2 milljarðar króna á fyrri helmingi ársins samanborið við tæpa 4,5 milljarða á sama tímabili 2008. Eigið tjónshlutfall félagsins lækkaði úr 104% í 92% á milli ára.

Þegar uppgjör TM er skoðað nánar kemur í ljós að verulegur viðsnúningur hefur orðið á fjárfestingatekjum félagsins sem námu tæpum 2 milljörðum króna á fyrr hlut ársins en voru neikvæðar um tæpar 500 milljónir á sama tíma í fyrra. Þar munar mestu um rúmar 900 milljónir króna í gangvirðisbreytingar sem færðar eru um rekstur en af þeim hluta var tap upp á um 2,5 milljarð á sama tíma í fyrra.

Hagnaður félagsins eftir skatta og fjármagnsliði nemur 3,5 milljörðum króna, samanborið við tap upp á 3,4 milljarða á sama tíma í fyrra. Hagnaður af aflagðri starfssemi nemur 3 milljörðum króna.

Þá kemur loks fram í tilkynningunni að heildareignir TM voru 30,7 milljarðar króna þann 30. júní 2009 og hafa lækkað um 39,2 milljarða vegna sölu á norska vátryggingafélaginu Nemi Forsikring ASA.

Geta félagsins til að standa við skuldbindingar langt fram yfir kröfur

„Helsta verkefni félagsins undanfarin misseri hefur verið að bæta afkomu af vátrygginga-starfseminni. Sú vinna hefur haft þau áhrif að hægt hefur verulega á vexti og tjónakostnaður lækkar milli ára,“ segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM í tilkynningunni.

„Markmið um að bæta afkomu eignatrygginga og frjálsra ökutækjatrygginga náðust þegar á fyrri hluta ársins. Afkoma skipa-, slysa- og ábyrgðatrygginga á tímabilinu veldur hins vegar vonbrigðum. Unnið er markvisst að úrbótum og mun sú vinna halda áfram þar til jafnvægi hefur náðst. Árangur þeirrar vinnu ætti að verða ljós á fyrsta fjórðungi næsta árs.“

Sigurður segir að afkoma félagsins af fjárfestingastarfsemi skýrist að mestu af vaxtatekjum, kröfulækkun ríkistryggðra skuldabréfa og hækkun hlutabréfa. Þá skýrist hagnaður af aflagðri starfsemi af gengishagnaði við sölu á norska vátryggingafélaginu Nemi.

„Fjárhagsleg staða TM er sterk og eignir á móti vátryggingaskuld (bótasjóður) traustar. Geta félagsins til að standa við skuldbindingar sínar er vel umfram það sem opinberir aðilar gera kröfur um,“ segir Sigurður.