Velta í kreditkortaviðskiptum Íslendinga erlendis var tæplega 2,1 ma.kr. í febrúar á þessu ári og hafði þá aukist um 26% á milli ára. Á föstu gengi, sem er nálgun við hversu mikil magnaukning hefur verið í kaupum Íslendinga erlendis, er aukningin ríflega 33%. Færslunum hefur fjölgað um 28% og því virðist sem keyptir séu dýrari hlutir eða þá einfaldlega meira í einu. Af tölunum sést að landinn nýtir sterka krónu til mikilla og vaxandi kaupa erlendis segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Fer það heim og saman við vaxandi ferðalög en aukning þeirra á sér ekki síst skýringar í sterkri stöðu krónunnar. Íslenskir farþegar um Keflavíkurflugvöll voru 36% fleiri í febrúar í ár en í sama mánuði í fyrra. Allt þetta hefur bætt í viðskiptahallann sem stefnir í að slá sögulegt met í ár, bæði í krónum talið og sem hlutfall af landsframleiðslu. Seðlabankinn spáir því að hann losi 12% af landsframleiðslu eða um 119 ma.kr. Líklegt er að ástand þetta sé tímabundið og að áður en yfirstandandi tímabil stóriðjuframkvæmda er á enda muni viðskiptahallinn grafa undan styrk krónunnar með þeim afleiðingum að dragi úr neyslu Íslendinga erlendis. Líklegt er að þetta eigi sér stað áður en árið 2007 rennur upp.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.