„Það kemur fátt á óvart við þessa ákvörðun Seðlabankans“, segir Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka iðnaðarins en vextir voru í dag lækkaðir um 0,5 prósentur. „Ég vænti þess að rök bankans verði á þá leið að smávægilegt svigrúm hafi skapast til lækkunar vaxta vegna þess að gengi krónunnar hefur verið að styrkjast lítillega eða m.ö.o. hafa gjaldeyrishöftin verið að halda bærilega. Seðlabankinn virðist ekki eiga marga kosti en að fara varlega í að lækka vexti. Ég tel þó að meðan höftin virka og eru til staðar sé enn talsvert svigrúm til að lækka vexti frekar“, segir Bjarni Már.

„Stóra málið hjá okkur núna er hins vegar að reyna koma því fjármagni sem liggur óhreyft í bönkunum í vinnu. Á sama tíma og þörfin fyrir að koma einhverri hreyfingu á efnahagslífið hjá okkur liggja gífurlegar upphæðir óhreyfðar inn á innlánsreikningum í bönkunum. Vandinn er auðvitað sá að vextir á þeim eru tiltölulega háir og augljósir fjárfestingakostir vandséðir, nema ríkisskuldabréf sem er að soga til sín gífurlegt fjármagn. Það verður að vinda ofan af þessari stöðu og eina leiðin er að draga úr fjármagnsþörf ríkisins með því að eyða hallanum og hins vegar að halda áfram að lækka vexti. Þannig má skapa bæði getu og hvata fyrir einkageirann til að fjárfesta á ný“, segir Bjarni Már.