Skipun nýrrar ríkisstjórnar mun vera að skýrast og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur verið leitað til dr. Gylfa Magnússonar, dósents við Háskóla Íslands um að hann taki sæti í ríkisstjórninni sem viðskiptaráðherra.

Eins og komið hefur fram í fréttum hefur verið rætt um að fá menn utan stjórnmálanna inn í ríkisstjórnina og þá einkum horft til stóls viðskiptamálaráðherra enda munu bankamálin brenna á honum. Gylfi vakti athygli á síðasta ári þegar hann lét hafa eftir sér að Kaupþing væri tæknilega gjaldþrota við litlar vinsældir stjórnenda bankans. Hann hefur tekið mikinn þátt í umræðunni í eftirmála bankahrunsins.

Búist er við því að málefnasamkomulag stjórnarflokkanna og ráðherralisti verði kynntur á morgun og stjórnin taki við völdum á laugardag.

Viðbót kl. 15:44: Þegar náðist samband við Gylfa sagðist hann ekki vilja ræða þetta að svo stöddu.

Fyrir liggur að Framsóknarflokkur fær embætti forseta Alþingis fyrir að verja ríkisstjórnarflokkana vantrausti.