Minnkandi framleiðsla á matvælum, allt frá hrísgrjónum til mjólkurafurða, mun koma sér öllum illa – nema fjárfestum.

Þannig byrjar nýleg fréttaskýring Bloomberg fréttaveitunnar um matvælaframleiðslu í heiminum en fréttaveitan kemst að þeirri niðurstöðu að framundan sé mikil hækkun á matvælum sem kunni að leiða af sér mikið verðbólguskot úti um allan heim.

Samkvæmt nýrri könnun Bloomberg á meðal innflytjenda, útflytjenda og annarra markaðsaðila má gera ráð fyrir því að verð á grjónum hækki á næstu mánuðum um 63% þannig að tonnið af hrísgrjónum kosti þá um 1.040 Bandaríkjadali. Hækkunin kemur helst til vegna minni framleiðslu frá Filippseyjum og þurrka í Indlandi.

Þá gera bandarísk yfirvöld ráð fyrir því að þurrmjólk hækki þar í landi um 39% á næsta ári og greiningardeild JP Morgan gaf nýlega út skýrslu þar sem spáð er 25% hækkun á hrásykri á næsta ári.

Þetta eru aðeins dæmi um spár yfir verðhækkanir matvæla- og landbúnaðarvara en þess bera að geta að samkvæmt mælingum matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (SÞ) hækkaði matvælaverð um 7% á heimsvísu í nóvember, sem er mesta hækkun á milli mánaða frá því í febrúar 2008.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .