Alls sóttu ríflega fjögur þúsund nemendur um skólavist að þessu sinni sem eru rétt tæplega 98,3% allra þeirra sem útskrifuðust úr grunnskóla nú í vor. Líkt og undanfarin ár gafst nemendum kostur á að sækja um tvo skóla.

Undanfarin ár hafa nokkrir skólar notið mikilla vinsælda hjá umsækjendum og var engin breyting á því í þessari innritun. Samkeppnin um laus pláss var því hörð og þurftu þeir skólar sem fengu hvað flestar umsóknir að vísa mörgum umsækjendum sínum frá. Verzlunarskóli Íslands, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Hamrahlíð og Borgarholtsskóli fengu flestar umsóknir að því er kemur fram í frétt á vef Menntamálastofnunar.