Danska fyrirtækið Vestas, sem framleiðir vindmillur til raforkuframleiðslu, mun segja upp 2.335 starfsmönnum til að koma rekstri fyrirtækisins aftur réttu megin við núllið. Í frétt Guardian segir að um sé að ræða einn tíunda af heildarstarfsmannafjölda fyrirtæksisins og að uppsagnirnar geti sparað Vestas um 150 milljónir evra á þessu ári. Samsvarar það um 23 milljörðum króna.

Þá segir fyrirtækið að 1.600 störf til viðbótar gætu farið í Bandaríkjunum ef ekki kemur til framlenging á skattafríðindum til endurnýjanlegrar orkuframleiðslu.

Hærri framleiðslukostnaður, lækkandi söluverð og minnkandi eftirspurn eftir framleiðsluvörum fyrirtækisins eru ástæðurnar fyrir versnandi afkomu Vestas.