Nýr Tröllatunguvegur um Arnkötludal verður líklega opnaður fyrir umferð síðdegis í dag eða á morgun. Vegurinn liggur frá Geiradal norðan Gilsfjarðar um Gautsdal, Tröllatunguheiði og Arnkötludal að Djúpvegi 61 í Steingrímsfirði. Með þessari tengingu næst veruleg stytting á vetrarfærum vegi á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar. Auk þess er með þessum 24,5 kílómetra kafla lögð lokahönd á lagningu samfellds slitlags á þessari leið.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni vinnur verktakafyrirtækið Ingileifur Jónsson nú að því að leggja lokahönd á verkið með uppsetningu á vegstikum og öðrum vegmerkingum. Ekki er endanlega búið að gefa út hvenær vegurinn verður opnaður fyrir umferð, en líklegt er að það geti orðið síðdegis í dag eða á morgun.