Bæjarráð Vestmannaeyja hefur ákveðið að stefna bæði seljanda og kaupanda á útgerðinni Bergur-Huginn í Vestmannaeyjum með það fyrir augum að ógilda viðskiptin fyrir dómi.

Í afgreiðslu bæjarráðs á stefnunni í dag var áréttað mikilvægi þess að rifta viðskiptunum fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum enda um að ræða 10% af hagkerfi Vestmannaeyja. Bæjarráð feli bæjarstjóra að vinna málið áfram bæði í því sem lítur að forkaupsrétti sem og því sem lítur að Samkeppnisstofnun þar sem vafi kann að leika á heimild Samherja/Síldarvinnslunar til að verða enn stærri en þegar er orðið.

Fram kemur í stefnu Vestmannaeyjabæjar að hinir stefndu eru Þórarinn V. Þórarinsson, stjórnarformaður Q44 ehf, félagsins sem seldi Berg-Huginn, og Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.

Fór ósáttur frá borði

Magnús Kristinsson
Magnús Kristinsson
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

Það var útgerðarmaðurinn Magnús Kristinsson og fjölskylda hans sem áttu Berg-Huginn. Þau seldu reksturinn í ágúst árið 2012 til Síldarvinnslunnar, sem eignaðist við það skip útgerðarinnar í Eyjum og kvóta. Elliði Vignisson , bæjarstjóri Vestmannaeyja, sagði í samtali við vb.is þegar tilkynnt var um söluna að hún hafi komið bæjarráðinu á óvart enda það fengið upplýsingar um hana um leið og aðrir. Bærinn taldi fram hjá sér gengið og ætti hann forkaupsrétt að útgerðinni. Þá sagði í Viðskiptablaðinu 24. janúar síðastliðinn að Elliði hafi fengið umboð til að vísa sölunni til yfirvalda.

Salan á Bergi-Huginn var liður í skuldauppgjöri Magnúsar við Landsbankann. Hann sendi frá sér yfirlýsingu á sínum tíma í tengslum við viðskiptin sem í sagði að hann hafi verið fórnarlamb markaðsmisnotkunar í aðdraganda hrunsins og fari hann ósáttur frá borði.