Vestmannaeyjabær hefur sent bréf til stjórnarformanns Landsbankans þar sem kallað er eftir gögnum þeim sem tengjast fyrirhuguðum framkvæmdum bankans við nýjar höfuðstöðvar við Austurhöfn í Reykjavík. Morgunblaðið greinir frá þessu.

Þar segir að bæjarfélagið hafi óskað eftir hluthafafundi í Landsbankanum og ítreki að það óski eftir því að hann verði haldinn svo fljótt sem verða megi. Þá er sérstaklega kallað eftir aðgangi að útreikningum sem tengjast þeim forsendum sem bankinn hefur kynnt og hann telur að muni leiða til 700 milljóna hagræðingar í rekstri bankans verði framkvæmdirnar að veruleika.

Í bréfinu eru einnig bornar upp spurningar í sex töluliðum. Þar er meðal annars spurt hvernig bankinn komist að þeirri niðurstöðu að byggingarkostnaður við nýjar höfuðstöðvar muni verða átta milljarðar króna og hvort lóðarverð sé með í þeim útreikningum.