Bæjarráð Vestmannaeyjabæjar ákvað á aukafundi fyrir skömmu að neyta forkaupsréttar á dragnótaskipinu Portland VE97 ásamt með öllu sem því fylgir og fylgja ber að engu undanskildu þ.m.t. tilheyrandi aflahlutdeild skipsins og veiðarfærum.

Í tilkynningu sem Elliði Vignisson bæjarstjóri sendi fjölmiðlum þakkar bærinn væntanlegum kaupanda og seljanda þá virðingu sem íbúum í Vestmannaeyjum hafi verið sýnd með því að virða þann forkaupsrétt sem kveðið sé á um í lögum um stjórn fiskveiða. Slíkt sé til eftirbreytni og til þess fallið að skapa aukna sátt um sjávarútveg.

Í þessum þökkum er augljóslega verið að skjóta á Síldarvinnsluna á Neskaupstað og útgerðarmanninn Magnús Kristinsson, en bæjarstjórn Vestmannaeyja vill meina að forkaupsréttur bæjarins hafi verið sniðgenginn þegar Síldarvinnslan keypti Berg-Huginn í fyrra.

Síðar í tilkynningunni er einmitt minnt á þau málaferli sem nú standa yfir gagnvart kaupanda og seljanda útgerðarinnar Bergs-Hugins og varðar þetta sama ákvæði laga um forkaupsrétt sveitarfélaga.