Vestmannaeyjabær hefur allt þetta kjörtímabil verið að greiða niður áratuga gamlar skuldir og er búið að greiða niður skuldir fyrir u.þ.b. 1,4 milljarða á tveimur árum.

„Í upphafi kjörtímabils hreinsuðum við upp allar erlendar skuldir og má sem dæmi nefna að við greiddum upp 90 milljóna dollaralán þegar dollarinn var í 59 krónum,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum í skýrslu um ársreikninga bæjarins.

„Lán þetta stæði í tæpum 200 milljónum núna.“

Þá kemur fram að skuldir á hvern íbúa hafa því lækkað verulega á kjörtímabilinu. Þannig námu skuldir á íbúa án lífeyrisskuldbindinga um 500 þúsund árið 2008 en voru 677 þús. kr. í árslok 2007. Heildarskuldir og skuldbindingar bæjarins nú eru um 4344 milljónir og skiptir þar mestu að lífeyrisskuldbindingar eru 2275 milljónir.

Vestmannaeyjabær tapaði ekki fé á falli bankanna

Í skýrslu Elliða kemur fram að helstu tíðindi seinasta árs séu sennilega þau að þrátt fyrir að vera með um 4 milljarða í umferð í bankakerfinu tapaði Vestmannaeyjabær engum fjármunum við fall bankana s.l. haust.

„Þar skiptir sennilega mestu að við höfum sjálf annast alla okkar fjárstýringu og treyst á eigið hyggjuvit umfram blinda trú á ráðgjöf,“ segir Elliði.

„Þá hefur glýja skjótfengins gróða ekki ýtt okkur í áhættusama ávöxtun. Við erum að höndla með fé sem bæjarbúar hafa byggt upp á áratugum og erum meðvituð um þá ábyrgð sem því fylgir.

Samkvæmt ársreikningum bæjarfélagsins námu heildartekjur bæjarsjóðs af skatttekjum um 1974 milljónum króna og jukust um 12,36%. Rekstrarniðurstaða ársins er 436 milljónir í hagnað.

„Þessi jákvæða staða skýrist fyrst og fremst af því að afar vel gekk í sjávarútvegi árið 2008,“ segir Elliði.

„Loðnuvertíð var þokkaleg, makríllinn var vítamínsprauta, kolmuninn kom sterkur inn og áfram mætti telja. Í viðbót við þetta gekk vel í bolfiski og mikla vinnu að hafa. Á þessu sést að andstætt við það sem mörg borgarbörnin halda þá njótum við öll góðs af þegar vel gengur hjá sjávarútvegsfyrirtækjum. Hér þekkir fólk og finnur á eigin skinni að þegar vel fiskast græða ekki bara sjómenn og útgerðarmenn heldur allt samfélagið.“

Þá kemur fram að framlag úr jöfnunarsjóði hækkaði um 42 milljónir króna á milli ára og heildar tekjur samstæðunnar fóru úr 2919 milljónum króna árið 2007 í 3324 milljónir árið 2008.

Samningurinn við Fasteign veldur bænum búsifjum

Í skýrslu Elliða kemur fram að helsta áhyggjuefnið nú sé samningur sem gerður var við fasteignafélagið Fasteign hf. árið 2004. Fyrsta heila árið sem þessar fasteignir voru leigðar eða árið 2005 námu leigugreiðslur 89 milljónum króna Árið 2006 voru leigugreiðslur kr. 93 milljónum króna og árið 2007 kr. 109 millj. Á árinu 2008 voru þessar leigugreiðslur kr. 151,4 milljónum króna.

Fram kemur að ástæða þess að leigan hækkar svona mikið er að leigan er að verulegum hluta tengd gengi evru.

„Við erum búin að leita logandi ljósi að einhverjum leiðum til að verja okkur fyrir þessu eða vinna úr erfiðri stöðu en samningurinn sem gerður var á sínum tíma settur okkur það þröngar skorður að enn höfum við ekki getað hreyft okkur. Við sitjum því uppi með þessar himin háu leigugreiðslur og getum ekkert gert annað en reynt að hagræða frekar í rekstri,“ segir Elliði í skýrslu sinni.

Mikilli hagræðingu hefur verið náð

Elliði segir að í heildina líti rekstur bæjarins ágætlega út. Tekjur hafi verið stöðugar og heldur upp á við. Umtalsverðri hagræðingu hafi veri náð með skipulagsbreytingum eins og aldursskiptingu grunnskóla, sameiningu leikskóla, breytinga á safnarekstri og fleira. Þá hafi mikið verið skorið niður í yfirstjórn Vestmannaeyjabæjar, yfirstjórnendum fækkað um 25%, staða íþrótta- og æskulýðsfulltrúa lögð niður og verkefni flutt á aðra starfsmenn, staða leiksólastjóra var lögð niður, staða deildarstjóra í málefnum fatlaðara var lögð niður, staða yfirstjórnenda í safnarhúsi var lögð niður, deildarstjórum hefur verið fækkað og áfram mætti telja.

„Við siglum því inn í kreppuna sterkari en flest sveitarfélög,“ segir Elliði.

„Með samstilltu átaki eigum við að geta staðið hana að mestu af okkur þótt auðvitað bíti hún hér eins og annarstaðar. Þannig myndi ég til að mynda ekki útiloka það að komið gæti til frestunar á verklegum framkvæmdum. Það jákvæðasta af öllu er svo að í fyrra fjölgaði búsettum Eyjamönnum úr 4040 í 4090. Núna 1. maí 2009 eru búsettir Eyjamenn orðnir 4127. Þessi fjölgun er í samræmi við þau markmið sem núverandi bæjarstjórn setti sér í upphafi kjörtímabils.“