Bæjaráð Vestmannaeyja styður tillögur um að Herjólfur verði notaður til siglinga í Land-Eyjahöfn til ársins 2013. Er það þó gert með ítarlegum fyrirvörum, m.a. um að frátafir ferjunnar verði ekki meiri en 3%.

Fréttir í Vestmannaeyjum greindu frá þessu en skýrsla Siglingastofnunar á samanburði á Herjólfi og dönsku ferjunni Kyholm var lögð fram á fundi bæjarráðs í gær. Fyrir liggur að Stýrihópur um „Land-Eyjahöfn” eins og Vestmannaeyingar eru farnir að  kalla nýju Landeyjahöfnina við Bakka, mælir með því að Herjólfur verði notaður í siglingar í Land-Eyjahöfn til ársins 2013.

Bæjarráð Vestmannaeyja ítrekar fyrri ályktanir sínar hvað varðar þá niðurstöðu að ekki skuli hafa orðið af nýsmíði á Vestmannaeyjaferju eins og stefnt var að.

Bæjarráð tekur undir afstöðu stýrihópsins hvað varðar samanburð á Herjólfi og Kyholm og styður það að Herjólfur verði notaður til siglinga í Land-Eyjahöfn til ársins 2013. Það er þó gert með margháttuðum fyrirvörum.