Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að Landsbankinn skuli verða við kröfu Vestmannaeyjabæjar og Vinnslustöðvarinnar um hlutlaust mat á verðmæti Sparisjóðs Vestmannaeyja.

Fullnaðarsigur

Segir í dómsorði að „Dómkveðja skal matsmenn í samræmi við beiðni matsbeiðenda, Vestmannaeyjabæjar og Vinnslustöðvarinnar hf.“ Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum kallar þessa niðurstöðu fullnaðarsigur.

„Ég fagna þessari niðurstöðu héraðsdóms.  Ég tel hana vísbendingu um að gerð verði aukin krafa til fjármálastofnana um að framganga þeirra einkennist af sanngirni og gagnsæi.  Jafnvel þótt Landsbankinn hyggist nú nýta sér 14 daga frest til að kæra úrskurðinn til hæstaréttar þá verður að telja ólíklegt að hann geri það,“ segir Elliði í fréttatilkynningu og heldur áfram:

„Eftir allt þá er Landsbankinn í nánast 100% eigu íslenska ríkisins og við verðum að trúa því að hann vilji ganga fram af meðalhófi og undirgangast af hógværð þá kröfu okkar sem nú hefur verið staðfest af héraðsdómi.  Eftir allt þá snýr hún eingöngu um að fyrrverandi eigendur Sparisjóðsins fái hlutlausar upplýsingar um hvers virði eignir þeirra voru þegar sjóðurinn var á þvingaðan máta sameinaður við Landsbankann.“

Frábrugðinn og íþyngjandi

Sparisjóður Vestmannaeyja glímdi við rekstrarvanda áður en hann var sameinaður Landsbankanum, en Elliði segir að lausafjárstaðan hafi í raun verið góð þegar sjóðurinn fékk fimm daga til að auka eigið fé. Þann stutta tímafrest segir hann vera verulega frábrugðinn og meira íþyngjandi en áður hafi verið gert til dæmis gangvart SPKef og Byr.

Elliði segir í grein á elliði.is að stofnfjáreigendur hafi nánast enga aðkomu haft að yfirtöku Landsbankanum og frá upphafi hafi verið óvissa um hvort verðmæti stofnfjár hafi verið rétt metið. Landsbankinn hafi varist frá upphafi en í dómsorði segir:

„Verður að hafna öllum mótbárum matsþola Landsbankans og dómkveðja matsmenn í samræmi við beiðni matsbeiðenda“.