Sparisjóður Vestmannaeyja er einn þeirra sjóða sem hafa óskað eftir sérstöku framlagi úr ríkissjóði til styrktar eiginfjárstöðu sjóðsins. Sparisjóðurinn átti 5,3% hlut í Sparisjóðsbankanum og því má gera ráð fyrir að sjóðurinn verði að afskrifa á milli 800 og 900 milljónir króna vegna falls Sparisjóðsbankans.

Að sögn Ólafs Elíassonar sparisjóðsstjóra þarf bankinn einnig að afskrifa vegna annarra fjármálastofnanna og einnig þess að sjóðurinn hefur verið þátttakandi á millibankamarkaði. Ársreikningur sjóðsins mun liggja fyrir um næstu mánaðamót. Samkvæmt birtum ársreikningi fyrir árið 2007 var eigið fé sjóðsins um 1,8 milljarðar króna. Miðað við hámarksframlag úr ríkissjóði má ætla að sjóðurinn geti fengið 370 milljónir krónas til styrkingar efnahag hans ef umsókn verður metin jákvætt.

Samþykktum sparisjóðsins var breytt fyrir skömmu þannig að nú getur einstakur stofnfjáraðili átt meira en 5% í sjóðnum. Eins og staðan er í dag á engin meira en 5%.

Sparisjóðurinn rekur útibú á Selfossi og Höfn í Hornafirði auk starfseminnar í Vestmannaeyjum.