*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 22. ágúst 2008 09:15

Vestnorrænir þingmenn funda í næstu viku

Umræður um Evrópusambandið, fríverslun, björgunarmál, sel- og hvalveiðar á vestnorrænum fundi

Ritstjórn

Um 30 vestnorrænir, norskir og sænskir þingmenn auk ráðherra funda í næstu viku um vestnorræn málefni. Um er að ræða ársfund Vestnorræna ráðsins, sem að þessu sinni er haldinn á Grundarfirði dagana 25. til 28. ágúst.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðinu.

Þá kemur fram að á fundinum munu menn meðal annars velta fyrir sér hvernig löndin þrjú, Ísland, Færeyjar og Grænland, geti með samstarfi styrkt stöðu sína gagnvart Evrópusambandinu varðandi sjávarútveg og veiðar.

Réttur Vesturnorðurlanda til sjálfbærra veiða allra dýra hafsins, þar á meðal sela og hvala, verður ræddur ásamt því hvernig löndin geti í sameiningu miðlað upplýsingum um sjálfbærar veiðar til að vinna gegn þeim tilfinningahlöðnu fordómum og þekkingarskorti sem oft einkennir umræðuna í löndum þar sem ekki er hefð fyrir slíkum veiðum.

Karl V. Matthíasson þingmaður og formaður ráðsins segir í tilkynningunni að samstarf um björgunarmál og samhæfð viðbrögð við stórslysum á Norður-Atlantshafi verði á dagskrá fundarins.

„Tekin verður fyrir tillaga, sem byggð er á niðurstöðum þemafundar ráðsins sem haldinn var í Færeyjum í júní, um að björgunarsveitir á Vesturnorðurlöndum og Noregi ásamt landsstjórninni í Grænlandi efni til samstarfs og skipi nefnd sem ákveði hvernig samstarfi björgunarsveita á svæðinu verði best háttað og kanni þörfina á því að stofnaðar verði björgunarsveitir á Grænlandi“, segir Karl.

Einnig kemur fram að á fundinum munu Ísland og Færeyjar gefa skýrslu um reynslu sína af fríverslunarsamningi landanna, Hoyvíkursamningnum, sem brátt hefur verið í gildi í tvö ár. Líkurnar á þátttöku Grænlands í samningnum verður jafnframt ræddar.

Samstarfssamningur er í gildi milli Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs sem opnar fyrir möguleikann á því að tillögur Vestnorræna ráðsins verði teknar fyrir á vettvangi Norðurlandaráðs.

Að sögn Karls, mun ársfundurinn ræða að beina þeirri ósk til Norðurlandaráðs að hvetja norrænu ríkisstjórnirnar til að setja á fót nefnd sem fari ofan í saumana á lögum og reglum sem gilda um siglingar í Norðurhöfum, greini brotalamir og leggi fram tillögur um úrbætur sem stuðli að auknu siglingaöryggi á svæðinu.

Lagt er til að yfirlitið liggi til grundvallar samvinnu landa við Norður-Atlantshaf um björgunar- og öryggismál og á því verði hægt að byggja sameiginlegar tillögur sem lagðar verði fram til Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um siglingaöryggi. Jafnframt verður lagt til að unnin verði áætlun um hvernig viðbrögðum og samstarfi skuli háttað, verði alvarleg sjóslys.

Fyrir fundinum liggur tillaga um að stofnað verði til vestnorræns dag sem ríkisstjórnir landanna tryggi að haldinn verði hátíðlegur árlega frá árinu 2010.

Menntun er einnig á dagskrá fundarins og verður farið yfir hvaða menntun stendur ófaglærðu starfsfólki til boða í löndunum þremur.

Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þinga Færeyja, Grænlands og Íslands.