Vesturland og Vestfirðir er eina landsvæðið sem hagnast á byggðakvóta, línuívilnun, skelbóta og skiptingu strandveiða. Hagnaður fyrirtækja í landshlutanum nemur rúmum 1,5 milljörðum króna. Á móti tapar Suðurland rúmum 1,1 milljarði króna og Reykjavík og Kraginn 914 milljónum króna vegna skerðingarinnar.

Þetta er á meðal þess sem lesa má úr niðurstöðum á áhrifum veiðigjalda og skerðinga á ýmsa landshluta á síðasta fiskveiðiári. Sigurður Steinn Einarsson, nemandi í sjávarútvegsfræðum við Háskólanum á Akureyri skoðaði málið. Morgunblaðið fjallaði um niðurstöður hans.

Þá kemur fram í rannsókn Sigurðar að ætla megi að sum skuldsettustu sjávarútvegsfyrirtækin greiði ekkert sérstakt veiðigjald vegna svonefnds vaxtaafsláttar. Mestan afslátt, sem hlutfall af sérstöku veiðigjaldi, fengu sjávarútvegsfyrirtæki á Reykjanesi eða 66% afslátt, þ.e. afslátt upp á 220 milljónir króna. Vesturland og Vestfirðir fengu næstmestan afslátt hlutfallslega eða 57%. Það svaraði til 361 milljóna króna afsláttar. Í öðrum landshlutum var afslátturinn frá engu á Norðurlandi vestra upp í 11,62% í Norðausturkjördæmi. Þar var sérstaka veiðigjaldið 2,27 milljarðar og afslátturinn 264 milljónir. Samtals nam sérstaka veiðigjaldið 6,5 milljörðum á landinu öllu og afslátturinn var alls rúmlega 1,1 milljarður.