Nýsköpunar- og frumkvöðlahátíðin Iceland Innovation Week fer fram í þriðja sinn dagana 16.-20. maí næstkomandi. Hátíðin er markaðsgluggi íslenskrar nýsköpunar en frumkvöðlum, stofnunum og fyrirtækjum gefst kostur á að standa fyrir nýsköpunartengdum viðburðum og kynna starfsemi sína.

Á hátíðinni verður hægt að sækja loftslagsráðstefnu Iceland Innovation Week, sem haldin er í samvinnu við Davíð Helgason, stofnanda Unity. Þá mun Össur kynna fyrsta rafknúna gervihnéð. Einnig munu Landsvirkjun bjóða í fyrsta vetnisgrillið á Íslandi.

Hugmyndin með hátíðinni er að skapa vettvang fyrir innlenda jafnt sem erlenda aðila til að kynnast nýsköpun á Íslandi, tengjast sprotum, fjárfestum og frumkvöðlum og mynda ný viðskiptasambönd og tengsl.

„Okkar tilfinning er sú að það sé tiltölulega einfalt að stofna fyrirtæki hér á landi, en vandi flestra snýr að því að skala og vaxa út fyrir landsteinanna. Við vildum leggja okkar af mörkum og þess vegna stofnuðum við Iceland Innovation Week. Nú er hægt að beina frumkvöðlum, fjárfestum og öðrum áhugasömum um íslenska nýsköpun á hátíðina til að upplifa þverskurðinn af öllu því sem er í gangi. Við finnum fyrir ótrúlegum áhuga erlendis frá,“ segir Melkorka Sigríður Magnúsdóttir , framkvæmdastjóri hátíðarinnar.

Von er á fjölda erlendra gesta á hátíðina sem munu taka þátt í viðburðum, flytja erindi og veita ráðgjöf til frumkvöðla og sprotafyrirtækja. Þar ber helst að nefna sérfræðinga frá loftslags fjárfestingasjóðunum Pale Blue Dot og Voyager VC og vísisfjárfestirinn Lorenzo Thione, stofnanda Gaingels sem einblínir á fjárfestingar innan hinsegin samfélagsins.

Hátíðin er ekki einskorðuð við eitt húsnæði eða ráðstefnusal heldur fer fram víða um höfuðborgarsvæðið og frítt er inn á flesta viðburði.

Einn af hápunktum Iceland Innovation Week er verðlaunaafhending Nordic Startup Awards sem haldinn verður í Hörpu miðvikudaginn 18. maí í samvinnu við Reykjavíkurborg, Íslandsstofu og Icelandair. Viðburðurinn laðar að frumkvöðla og fjárfesta af Norðurlöndum. Meðal annarra viðburða sem verða á dagskrá má nefna:

  • Afmælisviðburður Controlant: Frægð á einni nóttu tekur fimmtán ár
  • Nýsköpunarverkefni Landsvirkjunar; Orkídea, Blámi og Eimur bjóða í fyrsta vetnisgrillið á Íslandi
  • Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands
  • Heimsókn í nýjustu fiskverkunarsmiðju Brim þar sem vélmenni frá Marel hafa yfirráðin
  • Össur kynnir fyrsta rafknúna gervihnéð
  • Ríkiskaup og Stafrænt Ísland standa fyrir nýsköpunardegi hins opinbera og “Gov Jam” hakkaþoni.
  • Sjálfbært er frábært: Vísindadagur OR samstæðunnar
  • Ok, bye: Loftslagsráðstefna Iceland Innovation Week í samvinnu með Davíð Helgasyni frumkvöðli og loftslagsfjárfesti