Sendiráð Íslands í Washington D.C. og auðlindaskrifstofa utanríkisráðuneytisins stóðu nýlega fyrir kynningarfundi um áform Íslands um aukna nýtingu vetnisorku og jarðvarma. Fundurinn fór fram í Bandaríkjaþingi í samstarfi við áhugahóp fulltrúadeildar um vetni, House Hydrogen Caucus.

Í frétt í Stiklum, vefriti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, kemur fram að fundurinn var vel sóttur, einkum af sérfræðingum úr starfsliði bandarískra þingmanna, ráðuneyta, fyrirtækja og stofnana sem starfa á sviði vetnisorku og jarðvarma.

Á fundinum var m.a. gerð grein fyrir verkefnum, reynslu og áformum Íslenskrar Nýorku um að innleiða vetnisorku á Íslandi. Þá var fjallað um tækifæri á sviði jarðvarma og sagt frá djúpborunarverkefni ÍSOR sem styrkt er m.a. af vísindasjóði Bandaríkjanna.

"Bandaríkjamenn hafa þungar áhyggjur af því hve háðir þeir eru orðnir olíu, bæði í efnahagslegu tilliti og með tilliti til öryggismála,? segir Helgi Ágústsson sendiherra. ?Bandarísk stjórnvöld leggja mikla áherslu á að þróa nýjar leiðir til að mæta orkuþörf sinni. Þannig lýsti George W. Bush, Bandaríkjaforseti, því nýlega yfir að vetni væri raunhæfur orkugjafi framtíðarinnar.

Hefur stjórn hans veitt 1,2 milljörðum Bandaríkjadala til vetnisrannsókna. Bandaríkin líta einnig til reynslu og þekkingar annarra ríkja og hafa sýnt Íslandi mikinn áhuga,? segir Helgi í Stiklum.