Brimborg og Íslensk NýOrka tóku í dag á móti tíu notuðum vetnisrafbílum af gerðinni Ford Focus FCV (Fuel Cell Vehicle) sem fluttir eru inn frá Bandaríkjunum. Með komu þessara bíla verður stærsti fólksbílafloti vetnisrafbíla í Evrópu staðsettur á Íslandi og er meirihluti bílanna frá Ford.

Fyrir eru á landinu tveir vetnisrafbílar, annar af gerðinni Ford Explorer FCV sem kom í vor og einn sömu gerðar og þeir sem nú komu til landsins.

Brimborg tók fyrsta visthæfa skrefið þegar umhverfisstefna fyrirtækisins var mótuð árið 1996 og allar götur síðan hefur fyrirtækið viljað vera leiðandi á Íslandi þegar kemur að bílum knúnum endurnýjanlegum orkugjöfum. Á haustmánuðum kynntu tíu helstu bílaframleiðendur heims að vetnisrafbílar séu tæknilega tilbúnir og markaðshæfir. Það eru Daimler, Ford, GM, Opel, Honda, Hyundai, Kia, Reneult, Nissan og Toyota.

Telja forsvarsmenn Brimborgar því ljóst að rafvæðing samgangna sé nær en flestir halda. Frá og með 2015 gera bílaframleiðendur ráð fyrir að nokkur hundruð þúsund vetnisrafbíla verði settir á markað.

Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri Brimborgar, segist reikna með að fjöldaframleiðsla þýði lækkun á verði vetnisknúinna rafbíla sem verða þá fljótlega samkeppnishæfari í innkaupum og rekstri.

Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Nýorku, tekur undir þetta og segir að þar sem Þjóðverjar hafi nú markað ákveðna stefnu í uppbyggingu vetnisstöðva þar í landi, þá aukist þunginn verulega í vetnisvæðingu bílaflotans.

Danir ætla að ná forystunni

Íslendingar eru ekki einir um áhuga á vetnisbílum. Í tengslum við umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn var fyrsta vetnisstöðin í Kaupmannahöfn opnuð í gær (13. desember). Er stöðin frá H2 Logic fyrirtækinu og á sama tíma voru teknir í notkun 8 nýir vetnisbílar, þ.e. tveir sendibílar og 6 fólksbílar. Með þessu er Kaupmannahöfn að stíga sín fyrstu skref í átt að því markmiði að gera borgina að fyrstu kolefnisfríu höfuðborg heimsins árið 2025. Þess ber þó að geta að Kaupmannahöfn nýtur þess í markmiði sínu að verulegur hluti almennings ferðast þegar um á reiðhjólum.

Mun borgin síðan fá 25 rafmagnsbíla fyrir árslok og verður komin með 33 umhverfisvæna bíla í notkun.

Með opnun vetnisstöðvarinnar er Kaupmannahöfn að ýta af stað verkefni sem miðar að uppsetningu vetnisáfyllingarstöðva víða um Danmörku og í Norður- Evrópu. Er þetta verkefni unnið í samvinnu Hydrogen Link í Danmörku og Kanadamanna sem þykja standa mjög framarlega í vetnistækni.

Þjóðverjar í vetnis- og rafvæðingu

Daimler í Þýskalandi kynnti sinn fyrsta vetnisbíl árið 1994 og hefur fyrirtækið síðan fjárfest yfir milljarð evra í vetnistækninni og búið er að keyra meira en 100 bíla yfir 4,5 milljónir kílómetra í reynsluakstri víða um heim, m.a. hjá Strætó á Íslandi. Er Daimler nú með í gangi einn stærsta vetnisbílaflota í heimi. Þá er nú búið að setja í gang framleiðslu á Mercedes Benz B-Class F-Cell bílnum sem kemst allt að 400 kílómetra á einni vetnisfyllingu. Verða fyrstu 200 bílarnir af þeirri gerð afhentir í Evrópu og Bandaríkjunum á næsta ári.

Opel hefur líka verið að þróa vetnisbíla sem og BMW. Þá mun Mercedes-Benz afhenda 1.000 rafbíla í Berlín nú á fimmtudaginn sem nota lithium-ion rafhlöður.

Í Berlín eru Clean Energy Partnership (CEP) áætlun sem Berlín og Hamborg taka þátt í. Þar eru þegar í notkun á annan tug vetnisknúinna strætisvagna. Þátttakendur í þessu verkefni eru m.a. bílaframleiðendurnir BMW, Daimler, Ford, GM/Opel og Volkswagen.

Þann 10 september 2009 var svo undirrituð í Berlín viljayfirlýsing leiðandi iðnfyrirtækja í Þýskalandi um uppsetningu á neti vetnisáfyllingarstöðva í landinu sem og að efla framleiðslu á rafbílum sem drifnir eru af vetnisefnarafölum. Áætlunin gengur undir nafninu H2 Mobility og þátttakendur í verkefninu eru Daimler, EnBW, Linde, OMV, Shell, Total, Vattenfall og NOW GmbH - National Organisation Hydrogen and Fuel Cell Technology. Tekið er fram að opið sé fyrir fleiri þátttakendur í verkefninu.

Í fyrsta áfanga verkefnisins er ætlunin að taka í notkun fjölda vetnisáfyllingastöðva á árinu 2011 í tengslum við efnahagshvataáætlun ríkisstjórnarinnar. Á uppsetningu stöðva um allt land að vera lokið 2015 þegar vetnisbílar eiga að vera komnir í fjöldaframleiðslu.