Hvergi í Evrópusambandinu fjölgaði gistinóttum á hótelum yfir vetrarmánuðina jafn mikið eins og á Íslandi, sé veturinn 2013-2014 borinn saman við veturinn 2014-2015. Þá er sama hvort litið er til allra hótelgesta eða eingöngu erlendra ferðamanna.

Gistinóttum yfir vetrarmánuðina, það er á tímabilinu frá nóvember til apríl, fjölgaði um 3,1% í Evrópusambandinu frá 2013-2014 til 2014-2015 samkvæmt nýjum tölum Eurostat . Meðal landa Evrópusambandsins fjölgaði gistinóttum mest í Póllandi, eða um 10,3% milli vetra. Næst kemur Danmörk með 10,0% fjölgun hótelgesta. Gistinóttum fækkaði milli vetra í fjórum löndum Evrópusambandsins - Ítalíu, Eistlandi, Finnlandi og Lúxemborg.

Á sama tímabili fjölgaði gistinóttum á Íslandi hins vegar um 17,8%, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands . Tekið skal fram að tölurnar eru ekki úr sama gagnagrunni og gæti því verið einhver munur á skilgreiningum.

22,5% fjölgun gistinótta erlendra ferðamanna á Íslandi

Sé eingöngu litið til erlendra hótelgesta var mest fjölgun gistinótta í Danmörku, eða 12,6% milli vetranna 2013-2014 og 2014-2015. Í Lettlandi, Póllandi og Tékklandi fjölgaði gistinóttum erlendra hótelgesta einnig um meira en 10% milli ára. Ítalski veturinn virðist hins vegar vera að detta úr tísku, en þar í landi fækkaði gistinóttum erlendra hótelgesta um 1,7% milli vetranna 2013-2014 og 2014-2015.

Miðað við tölur Hagstofu Íslands fjölgaði gistinóttum erlendra hótelgesta hér á landi hins vegar um 22,5% á sama tímabili. Það er því tvöfalt meiri fjölgun en var í Danmörku, og næstum því sjöföld sú fjölgun gistinótta erlendra hótelgesta yfir vetrarmánuðina sem var að meðaltali í löndum Evrópusambandsins.