Fjórtán daga vetrarleiðangri Bjarna Sæmundssonar lauk sunnudaginn 23. febrúar. Að venju var mældur hiti og selta á föstum sniðum út frá landinu, en vegna óvenju leiðinlegs veðurs tókst ekki að mæla á öllum stöðvum.

Hafrannsóknastofnun greinir frá á vef sínum.

Allt frá árinu 1950 hafa verið gerðar mælingar á seltu og hita á ákveðnum stöðum á landgrunninu. Fyrst voru þessar mælingar gerðar að vori eða snemma sumars en frá 1970 hafa mælingar verið gerðar fjórum sinnum á ári.

Auk mælinga á seltu og hita voru einnig tekin sýni á völdum stöðum til greiningar á næringarefnum, súrefni og koldíoxíði. Einnig var nokkrum smærri verkefnum sinnt, svo sem að leggja straummælabaujum í Patreksfirði og Reyðarfirði og safna sýnum fyrir Geislavarnir ríkisins vegna vöktunar á magni geislavirkra efn í sjó.

Þá voru sett út hlustunardufl fyrir Háskóla Íslands til að fylgjast með hvalaferðum djúpt út af Austurlandi. Fyrir erlenda samstarfsaðila voru einnig sett út rekdufl á fjórum stöðvum umhverfis landið til að mæla umhverfisþætti.

Greiningu gagna úr leiðangrinum er ekki lokið, en niðurstöðurnar munu m.a. birtast á „Vefur um sjórannsóknir“, á heimasíðu stofnunarinnar og í skýrslu,  „Ástand sjávar“, sem gefin er út reglulega.