Ný fatalína 66°Norður fyrir veturinn 2014-15 var frumsýnd í BMW-safninu í Munchen í Þýskalandi í vikunni. Á þriðja hundrað manns mættu á viðburðinn og var þar öllu flaggað. Meðal gesta voru innkaupaaðilar, frægir þýskir leikarar og íþróttamenn ásamt fjölmiðlafólki og Sky Sports sem klæðast fatnaði fyrirtækisins í útsendingum í Þýskalandi.

Fram kemur í tilkynningu að viðburður 66°Norður í safni BMW var haldinn í tengslum við ISPO-sýninguna sem stóð yfir í vikunni í Munchen en sýningin er sú stærsta sinnar tegundar í útivistar- og íþróttageiranum. Góður rómur var gerður að nýju línunni sem vakti mikla athygli en fatalínan þótti passa einkar vel innan um klassíska og flotta BMW bíla frá hinum ýmsu áratugum. Meðal annars var fatnaðinum stillt upp við mótorhjól frá árinu 1926 sem er einmitt sama ár og 66°Norður var stofnað.

„Þetta var einstaklega skemmtilegur og vel heppnaður viðburður og mikill heiður að fá að koma inn í þetta glæsilega safn og frumsýna nýja vetrarlínu með þessum hætti. Þetta er mikilvægt fyrir okkur að fá svona mikla og jákvæða athygli í Þýskalandi,“ segir Bjarney Harðardóttir hjá 66°Norður.

© Aðsend mynd (AÐSEND)