Snörp breyting var á fasteignamarkaði milli mánaðanna október og nóvember á höfuðborgarsvæðinu. Í Morgunkorni Glitnis segir að eftir nær 3% hækkun milli mánaða í október lækkaði verð í nóvember frá fyrri mánuði um 1,5%. Hækkun fasteignaverðs í október kom reyndar flestum á óvart því blikur sem þá voru á lofti hvað varðar vexti á húsnæðislánum bentu til þess að verðstöðnum eða jafnvel lækkun væri líklegri í mánuðinum. Lækkunin kom hins vegar ekki fyrr en í nóvember. Fermetraverð í fjölbýli lækkaði um 1,8% og fermetraverð í sérbýli lækkaði um 0,8%.

Vextir á húsnæðislánum hækkuðu í nóvember bæði hjá viðskiptabönkunum og Íbúðalánasjóði og aðgengi að lánsfé hefur einnig versnað. Þessir þættir virðast vera farnir að vega þyngra en mikil kaupmáttaraukning landans undanfarin misseri. Tölur um veltu mæld sem fjöldi þinglýstra kaupsamninga benda einnig í sömu átt. Fram undan fara vikur hátíðanna í hönd og í þeim er yfirleitt afar rólegt á fasteignamarkaði og búast má við að svo verði einnig nú. Það verður ekki fyrr en upp úr miðjum janúar sem t.d. veltutölur fara aftur að verða marktækar sem vísbending um hvert markaðurinn sé að stefna en samkvæmt Greiningu Glitnis er von á vetrarstillum á markaðinum og að nokkuð hratt dragi úr umsvifum.