Í kanadísku borginni Montreal væri það viðbúið að menn væru vanir snjó og komu hans um þetta leiti árs, en í kjölfar þess að það snjóaði í annað sinn á árinu lömuðust samgöngur á ný líkt og fyrir tveimur vikum þegar fyrsti snjórinn kom.

Myndband sem sýnir strætisvagna, leigubíl, jafnvel lögreglubíl og snjóruðningstæki missa stjórn á sér í hálkunni og klessast saman hefur farið út um allan heim og lýsa margir furðu á ástandinu.

Snjókomunni hafði verið spáð og því spyrja margir íbúar hví ekki hafi verið betri undirbúningur, en í Quebec ríki er skylda að setja upp vetrardekk á þessum tíma árs. Þau eru þó ekki negld en víða í kanada eru negld dekk bönnuð.

„Maður hefði haldið að þeir myndu salta göturnar, eða að minnsta kosti lokað þessari tilteknu götu, því hún er nokkuð brött,“ sagði Colin Creado sem varð vitni að atburðinum.