Hugbúnaðarfyrirtækið Vettvangur og vefstofan Sendiráðið hafa sameinast undir merkjum Sendiráðsins. Fram kemur í fréttatilkynningu að þá verða starfsmenn Senidráðsins sjö talsins. Fyrirtækið er alfarið í eigu starfsmannanna.

Sendiráðið var stofnað síðasta haust. Með stofnun þess vildu eigendurnir mæta vaxandi þörf fyrir veflausnir byggðar á opnum hugbúnaði auk hönnunar, ráðgjafar og markaðssetningar á netinu. Framkvæmdastjóri Sendiráðsins er Rósa Stefánsdóttir sem jafnframt er formaður Samtaka vefiðnaðarins (SVEF).

Vettvangur er ársgamalt fyrirtæki sem sérhæfði sig í opna vefhugbúnaðarkerfinu Umbraco og hefur Vettvangur meðal annars þróað viðbætur við kerfið sem notaðar hafa verið af viðskiptavinum bæði á Íslandi og erlendis. Á meðal viðskiptavina Sendiráðsins eru N1, Húsasmiðjan, 66°N, Mannvit, ASÍ, World Class og Pósturinn.