Framtakssjóðurinn VEX I hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé Opinna kerfa. Seljendur eru sérhæfði lánasjóðurinn MF1, í rekstri Ísafold Capital Partners hf., auk félags í eigu Frosta Bergssonar, eins stofnanda Opinna kerfa, ásamt minni hluthöfum. MF1 átti 79% hlut í Opnum kerfum og hefur verið aðaleigandi félagsins frá árinu 2019.

VEX I er tíu milljarða framtakssjóður í stýringu VEX ehf. sem er rekstraraðili sérhæfðra sjóða með áherslu á óskráðar fjárfestingar. VEX ehf. var stofnað fyrir ríflega ári af Trausta Jónssyni og Benedikt Ólafssyni en auk þess fjárfestu VÍS og Sjávarsýn, fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar í VEX. Félagið lauk fjármögnun á framtakssjóðnum VEX I síðastliðið vor.

Fyrsta fjárfesting VEX I voru kaup á 40% hlut í AGR Dynamics í júní. VEX I leggur áherslu á fjárfestingu í óskráðum fyrirtækjum sem eru að sækja nýtt hlutafé til vaxtar auk stöndugra rekstrarfyrirtækja þar sem sjóðurinn sér tækifæri til umbóta og aukinnar virðissköpunar.

Opin kerfi voru stofnuð árið 1985 og sérhæfa sig í ráðgjöf og innleiðingu rekstrar-, skýja- og hýsingarlausna ásamt sölu á notenda og miðlægum búnaði. 74 stöðugildi voru hjá félaginu á síðasta ári. Viðskiptavinir félagsins erum mörg af stærstu félögum landsins og nemur velta félagsins um fjórum milljörðum króna á ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .