Rekstur Nýherja hefur tekið stakkaskiptum á skömmum tíma og umfangið stóraukist í kjölfar breyttra áherslna: Frá því að selja tölvubúnað í að þjónusta fyrirtæki frá toppi til táar í upplýsingatæknimálum. Til þess að átta sig á vexti fyrirtækisins er hægt að líta til þess að stöðugildi þess eru orðin 755 en voru 225 í árslok 2004. Stökkið er reyndar líka stórt sé litið eitt ár um öxl; þá voru stöðugildin 453. Yfirtökur og stofnun fyrirtækja, ásamt ágætum innri vexti, stuðla að þessum vexti.

Næstum 30% af tekjunum koma erlendis frá, að því er fram kemur í uppgjörsgögnum. En að uppgjöri annars fjórðungs: Nýherji tapaði 91 milljón króna, sem er betri árangur en á fyrsta fjórðungi. Þá blasti við 341 milljónar króna tap sem gengisfall krónu stýrði að miklu leyti. Þungir fjármagnsliðir láta einnig finna fyrir sér nú, því fjármagnsgjöld voru 165 milljónir samanborið við kostnað upp á 43 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Ýmis ný starfsemi hjá Nýherja dregur niður afkomuna á fjórðungnum, líkt og TM Software sem Nýherji keypti í janúar.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .