„Við erum væntanlega að fara að sjá vexti á Íslandi lækka og fara á slóðir sem þeir hafa aldrei farið áður,“ er haft eftir Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra á visir.is, en hann var sérstakur gestur og fyrirlesari á Sjávarútvegsdeginum sem haldinn var í Hörpu í samstarfi Deloitte, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtala atvinnulífsins.

Ásgeir fór í fyrirlestri sínum yfir þau atriði í hagsögunni sem tengjast sjávarútvegi og Seðlabankanum. Þá ræddi hann um nýja stöðu sjávarútvegs í hagkerfinu og góðan árangur við að framfylgja verðbólgumarkmiði hér á landi.

Í máli Ásgeirs kom meðal annars fram að minnkandi hlutdeild sjávarafurða í útflutningi hefði gert það að verkum að sjávarútvegurinn á Íslandi væri ekki lengur atvinnugrein með mikla sértæka áhættu. Atvinnugrein með mikla sérstæka áhættu getur í krafti mikils vægis í hagkerfinu mátt til þess að hreyfa hagkerfið af eigin afli. Þetta þýði að sjávarútvegurinn sé farin að verka sveiflujafnandi fyrir hagkerfið.