Arion banki hefur tilkynnt um vaxtabreytingar í kjölfar þess að Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti á dögunum. Munu breytingarnar taka gildi á morgun, fimmtudag.

Þannig munu óverðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir hækka um 0,15 prósentustig og verða 3,89% og óverðtryggðir íbúðalánavextir fastir til þriggja ára munu hækka um jafn mörg prósentu stig og verða 4,64% frá og með morgundeginum. Vextir verðtryggðra íbúðalána haldast aftur á móti óbreyttir.

Almennir óverðtryggðir kjörvextir hækka sömuleiðis um 0,15 prósentustig, í 5,05%, líkt og kjörvextir bílalána sem verða 5,45% eftir breytingarnar, en yfirdráttarvextir og vextir greiðsludreifinga hækka um 0,25%. Vextir verðtryggðra kjörlána haldast óbreyttir.

Þá munu breytilegir óverðtryggðir innlánavextir hækka ýmist um allt að 0,25 prósentustig eða haldast óbreyttir.

Landsbankinn hækkaði í gær

Á mánudag tilkynnti Landsbankinn um breytingar á vöxtum sem tóku gildi í gær. Breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum hækkuðu um 0,20 prósentustig en vextir á óverðtryggðum íbúðalánum hækkuðu um 0,15% ef fest er til þriggja ára og 0,10 prósentustig ef fest er til 5 ára. Vextir verðtryggðra íbúðalána haldast aftur á móti óbreyttir.

Kjörvextir á óverðtryggðum útlánum bankans hækkuðu um 0,20 prósentustig en kjörvextir á verðtryggðum útlánum haldast óbreyttir. Breytilegir vextir óverðtryggðra lána vegna bíla- og tækjafjármögnunar hækkuðu um 0,20 prósentustig en vextir verðtryggðra lána héldust óbreyttir.

Yfirdráttarvextir hækkuðu um 0,25 prósentustig og vextir á óverðtryggðum sparireikningum hækkuðu um 0,15 til 0,25 prósentustig, vextir á reikningum með föstum vöxtum hækkuðu sömuleiðis um 0,15 til0,25 prósentustig en vextir almennra veltureikninga eru óbreyttir.

Íslandsbanki hefur ekki tilkynnt um vaxtahækkun að svo stöddu.