Mario Draghi, forseti evrópska seðlabankans (ECB), lýsti því yfir á vorfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um helgina að nauðsynlegt væri að slaka enn frekar á peningalegu aðhaldi á evrusvæðinu til að halda aftur af styrkingu evrunnar. Mikil áhersla var lögð á þá hættu sem stafar af of lágri verðbólgu á evrusvæðinu, jafnvel verðhjöðnun, á vorfundi AGS. Financial Times fjallaði um vorfundinn fyrr í dag.

Ekki er hefð fyrir því að ECB einbeiti sér að einstöku stigi evrunnar en Draghi hefur lýst því yfir að veiking gjaldmiðilsins sé nauðsynleg í ljósi mjög lágrar verðbólgu á svæðinu.

Ummæli Draghi um frekari slökun á peningalegu aðhaldi á evrusvæðinu hafa endurvakið væntingar markaðsaðila um að evrópski seðlabankinn muni lækka vexti niður fyrir núllið. Hefur Draghi áður bent á að styrking evrunnar sé ein helsta ástæða þess að verðbólga hefur farið lækkandi á svæðinu undanfarna mánuði. Evran hefur styrkst um 6% gagnvart dollar og 9% gagnvart jeninu síðastliðið ár. Telur Draghi að styrking gjaldmiðlsins hafi dregið úr verðbólgu sem nemur um 0,4-0,5% síðastliðna 18 mánuði.

Óhefðbundin peningamálstefna

Telja nokkrir meðlimir vaxtaákvörðunarnefndar ECB að neikvæðir vextir séu eina leiðin til að halda aftur af frekari styrkingu evrunnar. Neikvæðir vextir virka í raun eins og skattur á innstæður bankanna hjá seðlabankanum.

Um óhefðbundna peningamálstefnu er hér að ræða, en einu seðlabankarnir sem farið hafa þessa leið áður eru sænski seðlabankinn, í stuttan tíma árið 2009, og sá danski, í júlí 2012. Í tilviki danska seðlabankans voru neikvæðir vextir tilraun bankans til að halda aftur af innflæði fjármagns í því skyni að halda fastgengi dönsku krónunnar við evruna stöðugu. Áhrif aðgerðanna eru þó enn óljós í báðum tilvikum.

Nýjustu verðbólguspár fyrir evrusvæðið benda til þess að verðbólga verði um 0,9% í aprílmánuði. Verðbólga mældist 0,5% í mars, en verðbólga hefur ekki verið lægri á evrusvæðinu í fjögur ár.

Umfjöllun Financial Times má finna hér .