Búist er við minni vexti en áður innan Evrópu í maí. Það er til marks um að hækkandi lántökukostnaður sé farinn að taka sinn toll af atvinnulífi og heimilum í álfunni.

Væntingakannanir S&P Global meðal innkaupastjóra benda til þess að vöxtur í þjónustugeirum verði minni í maí og að samdráttur sé líklegur í framleiðslu. Hækkandi vaxtastig virðist þannig vera farið að hafa áhrif, en auk þessa hefur dregið úr lántökum banka í Evrópu.

Væntingakannir benda jafnframt til þess að þrátt fyrir að verð í framleiðslugeiranum hafi lækkað í fyrsta sinn frá september 2020, hafi verð í þjónustugeiranum, þar sem eftirspurn er enn sterk, hækkað meira en í apríl sl. Verkefni Seðlabanka í álfunni, sem hefur verið að draga úr verðbólgu, er fyrir vikið flóknara en ella.

„Þetta verður hausverkur fyrir Seðlabanka Evrópu,“ er haft eftir Cyrus de la Rubia, hagfræðingi hjá Hamburg Commercial Bank sem fjármagnar væntingakannanirnar.

Samhliða lækkandi orkuverði í kjölfar milds veturs náði hagkerfi evrusvæðisins aftur vexti á fyrsta ársfjórðungi eftir að hafa dregist saman á síðustu mánuðum ársins 2022. Þar með komust hagkerfi Evrópu hjá samdrætti sem margir hagfræðingar spáðu eftir innrás Rússlands í Úkraínu á síðasta ári.

Vonir um vöxt evrusvæðisins og Bretlands eru enn hóflegar, þar sem orkuverð er enn hátt og hækkandi matvælaverð hefur áhrif á heimili og dregur úr eftirspurn, ásamt hækkandi afborgunum lána.

Í síðustu viku var greint frá því að hagspár sambandsins bentu til áframhaldandi þenslu í hagkerfi evrusvæðisins. Voru hagvaxtarspár á þessu ári hækkaðar í 1,1% úr 0,9% og fyrir næsta ár í 1,6% úr 1,5%.

Nánar er fjallað um málið á vef WSJ.