Lánastofnanir þurfa að gera grundvallarbreytingar á skilmálum svo til allra fasteignalána til að þau standist lög að mati Neytendasamtakanna. Breytilegir vextir – hvort sem þeir eru alfarið fljótandi, eða fastir en háðir endurskoðun að tilteknum tíma loknum – skuli ákvarðaðir af fastri og tæmandi reiknireglu. Ekkert svigrúm sé í lögunum fyrir einhliða geðþóttaákvarðanir, óháð forsendum þeirra.

Breki Karlsson, formaður samtakanna, segir lög um fasteignalán skýr: heimild til vaxtabreytinga verði að vera hlutlæg og gagnsæ, enda sé það einkenni ósanngjarnra samningsskilmála að annar aðilinn geti breytt samningnum án þess að hinn geti lagt mat á hvort sú breyting sé réttmæt. „Breytilegir vextir verða að vera tengdir hlutlægum þáttum sem hægt er að sannreyna.“ Matskennda þætti á borð við framtíðarspár bankanna um vaxtaþróun ekki mega nota til ákvörðunar vaxtakjara samkvæmt Evrópudómstólnum.

Eftirlitskerfið brugðist
„Við erum fyrst með álit frá Neytendastofu frá 2009. Svo erum við með Hæstaréttardóm frá 2017. Þá finnst mér að allar bjöllur hefðu átt að klingja hjá Fjármálaeftirlitinu. Eftirlitskerfið hefur hinsvegar ekkert skoðað þetta.“

Samtökin sendu fyrirspurn á stóru bankana um hvernig vaxtaákvörðunum fasteignalána væri háttað fyrir ári. Einn svaraði því til að það væri engin reikniregla og annar að vaxtaákvörðunarferlið væri ekki samræmt, ekki væru samskonar aðferðir notaðar í hvert sinn. Samtökin telja hvort tveggja vera óheimilt. Sá þriðji, Arion banki, svaraði engu.

„Í svörum bankanna og þeim skilmálum sem við höfum verið að lesa er allt milli himins og jarðar tiltekið í lánaskilmálunum. Allt frá arðsemiskröfu banka og til útlánataps og jafnvel ófyrirséðra kostnaðarþátta. Það er náttúrulega eitthvað sem bankinn getur haft bein áhrif á. Hann getur ákveðið að hækka arðsemiskröfuna, og þá hækka vextir með.“

Vaxtaálag nífaldast
Vaxtaákvarðanir hafi því einkennst af miklu ógagnsæi og að því er virðist geðþótta, og samkvæmt greiningu sem unnin var fyrir samtökin taki vaxtakjör að minnsta kosti tveggja banka ekki nema að takmörkuðu leyti mið af markaðsvöxtum. Álag þeirra á markaðskjör hafi allt að nífaldast frá janúar 2018 til maí 2020. „Það er bara eins og puttanum sé stungið upp í loftið og [vaxtaákvörðunin] fari svo eftir skapi hverju sinni.“

Neytendasamtökin hafa gefið bönkunum frest til 24. september til að bregðast við kröfum sínum. Krafa samtakanna er tvíþætt. „Númer eitt er að skilmálar og framkvæmd vaxtabreytinga verði lagfærð. Númer tvö er að hlutur þeirra sem hallað hefur á verði leiðréttur,“ segir Breki. Í svari Íslandsbanka við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um málið segir að bréfi samtakanna verði svarað „innan tíðar“.

Þau kjör sem lánveitendur bjóði nýjum lántakendum hverju sinni megi þó byggja á huglægu mati, spám eða öðru, en þegar lán hafi verið veitt verði endurskoðun á vaxtakjörum að byggja á hlutlægum fyrirfram tilgreindum þáttum. „Þú ræður á hvaða vöxtum þú veitir lánið upphaflega, en heimildin til að breyta þeim eftir það verður að byggja á hlutlægum, sannreynanlegum þáttum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .