Gildi lífeyrissjóður hefur lækkað vexti á verðtryggðum lánum en sjóðurinn býður sjóðfélögm sínum nú lægstu föstu verðtryggðu vextina á húsnæðislánum frá upphafi eða 3,55%. Breytilegir vextir á verðtryggðum lánum sjóðsins eru nú frá 3,20% og á óverðtryggðum lánum frá 6,75%.

Í tilkynningu frá sjóðnum segir að vextirnir séu með þeim lægstu sem eru í boði á húsnæðismarkaðnum í dag. Töluverður sveigjanleiki er í húsnæðislánum Gildis, en hægt er að velja á milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána auk fastra og breytilegra vaxta.

Lánstími er allt að 40 ár og veðhlutfall allt að 75%. Gildi hefur boðið sjóðfélögum upp á húsnæðislán af þessu tagi frá árinu 2013 en allir sem greitt hafa í Gildi og séreignarsjóði Gildis eiga rétt á láni frá sjóðnum.