Seðlabanki Bandaríkjanna ákvað á fundi sínum í gær að hækka stýrivexti til að stemma stigu við ört vaxandi verðbólgu. Þetta er í fyrsta sinn sem bankinn hækkar vexti síðan 2018, að því er kemur fram í grein Wall Street Journal.

Stýrivextir voru hækkaðir um 25 punkta, en þeir hafa verið nálægt núlli frá byrjun faraldursins. Vaxtahækkunin mun skila vöxtum á bilinu 0,25-0,5%. Bankinn gaf í skyn, á blaðamannafundi í gær, að hann ætli að hækka vexti sex sinnum til viðbótar á árinu og að þeir nálgist 2% í lok árs.

Jay Powell seðlabankastjóri sagði að bankinn ætli að setja fram áætlun um sölu á hlut í 9 þúsund milljarða dala eignasafni sínu. Bankinn hefur lokið umfangsmiklum skuldabréfakaupum sínum í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.

Sjá einnig: 7,9% verðbólga vestanhafs

Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 7,9% í febrúar og hefur ekki verið meiri síðan í janúar 1982 þegar hún mældist 8,4%. Verðbólgan hefur mælst yfir 6% fimm mánuði í röð.

Orkuverð hækkaði um 25,6% á milli ára og bensínverð um tæp 40%. Matarverð hækkaði um 7,9%. Mikill skortur hefur verið á hálfleiðurum hjá helstu bílaframleiðendum sem hefur hægt á framleiðslu á nýjum bílum. Þannig hafa notaðir bílar hækkað um rúm 40% á milli ára.