Fjárfestar vestanhafs telja að Bandaríski seðlabankinn muni hækka stýrivexti um 75 punkta á vaxtaákvörðunarfundi sínum á morgun. Það yrði þriðja fundinn í röð sem bankinn hækkar stýrivexti um 75 punkta. Einhverjir fjárfestanna telja að vextirnir verði hækkaðir um 100 punkta, þó ólíklegra sé. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Seðlabankinn hefur nú þegar hækkað vexti um 150 punkta síðan í sumar og eru stýrivextir nú á bilinu 2,25-2,5%. Vextir voru hækkaðir síðast um 75 punkta í júlí, en þeir voru nálægt núlli í mars.

Auk fundarins á morgun á bankinn tvo fundi eftir á árinu, í nóvember og desember.

Sjá einnig: Vextir vestanhafs verði hærri en 4%

Nú á dögunum kom fram í könnun, á vegum Financial Times og University of Chicago‘s Booth School of Business, að sérfræðingar vestanhafs telji að stýrivextir verði orðnir hærri en 4% á þessu ári og muni haldast þannig út árið 2023.

Nærri 70% þeirra hagfræðinga sem spurðir voru álits áætla að vextirnir muni toppa í 4-5%, en um 20% telja að vextirnir muni hækka enn meira, upp í 5-6%.