Ávöxtunarkrafa bandarískra ríkisskuldabréfa stendur nú í 0,4% eftir að hafa lækkað um 0,3 prósentustig í fyrstu viðskiptum dagsins. Hefur krafan aldrei verið lægri en óhætt er að segja að mikil svartsýni hafi ríkt meðal skuldabréfafjárfesta á hagvaxtarhorfur. Síðastliðinn mánuð hefur krafan lækkað um rúmlega 1,1 prósentustig. Um er að ræða eina hröðustu lækkun í áraraðir.

Lækkanirnar sem valda hækkun á verðmæta skuldabréfanna koma til af versnandi hagvaxtarhorfum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar en skýrist einnig af því að fjárfestar hafa flúið í öruggari eignir líkt og ríkisskuldabréf. Auk þess lækkaði bandaríski seðlabankinn stýrivexti sína um hálft prósentustig í síðustu viku.