*

þriðjudagur, 19. nóvember 2019
Innlent 26. september 2019 20:29

Vextir í útrýmingarhættu

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, sagði vexti vera í útrýmingarhættu á heimsvísu á fjármálaþingi Íslandsbanka í gær.

Ritstjórn
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar.
Haraldur Guðjónsson

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, sagði vexti vera í útrýmingarhættu á heimsvísu á fjármálaþingi Íslandsbanka í gær. Heiðar tók þar þátt í panelumræðum ásamt Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra og Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka.

Aðspurður um hvort fjárfestar þyrftu almennt að lækka ávöxtunarkröfu sína vísaði hann til þess að þar sem vextir væru nú á válista væri ekki síst ástæða til að beina sjónum að væntanlegri ávöxtun lífeyrissjóða og að nú væri komin upp sú  áhugaverða staða að samhliða mun lægri arðsemi væri áhætta í fjárfestingum jafnvel að aukast.

Í kjölfarið bar Edda Hermannsdóttir, forstöðumaður Markaðs- og samskiptasviðs Íslandsbanka, sem stýrði umræðum, upp þá spurningu til fjármálaráðherra hvort endurskoða þyrfti þá arðsemiskröfu til bankanna sem ríkið gerði. Bjarni sagðist helst ekki vilja þurfa að svara þeirri spurningu. Betra væri að fjárfestar svöruðu fyrir það eftir sölu bankanna þar sem ríkið væri ekki góður eigandi banka. Hann tók þá fram að hann sæi fyrir sér að ríkið færi áfram með ráðandi eignarhlut í Landsbankanum.