Íbúðalánasjóður hefur í kjölfar útboðs á íbúðabréfum ákveðið að útlánavextir sjóðsins verði óbreyttir. Útlánavextir íbúðalána með uppgreiðsluákvæði verða áfram 4,5% en 5,0% á íbúðalán án uppgreiðsluákvæðis.

Vaxtaákvörðun Íbúðalánasjóðs byggist á ávöxtunarkröfu í útboði íbúðabréfa sem haldið var 15.mars 2010 ásamt vegnum fjármagnskostnaði uppgreiðslna ÍLS-veðbréfa. Vegnir vextir í útboðinu og uppgreiddra ÍLS-bréfa eru 3,85%.

Í febrúar ákvað stjórn Íbúðalánasjóðs að hækka vaxtaálag sjóðsins um 0,20% og féllst ráðherra á þá tillögu. Það álag leggst á alla þá sem taka lán hjá Íbúðalánasjóði. Við breytingarnar verður vaxtaálag vegna rekstrar 0,30%, vegna útlánaáhættu 0,35% og vegna uppgreiðsluáhættu 0,50%. Samtals er álag, sem Íbúðalánasjóður leggur á lántakendur, 1,15% en var áður 0,95%.