Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa hefur lækkað töluvert frá því Íbúðalánasjóður fór síðast í útboð 13. desember síðastliðinn, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Vextir sjóðsins á lánum með uppgreiðsluþóknun eru nú 5,5% og 5,75% á almennum lánum. Færi sjóðurinn í útboð miðað við núgildandi kröfu gæti hann lækkað útlánavexti um 0,4%-0,5%, að sögn greiningardeildar.

Krafa lengsta flokksins HFF44 hefur lækkað um 46 punkta frá útgáfunni, að sögn greiningardeildarinnar, en krafa styttri flokkanna hefur lækkað minna.

Sjóðurinn hefur að jafnaði gefið út í lengsta flokk íbúðabréfa til að geta boðið lántakendum sem hagstæðust kjör og því tekur þróun á útlánavöxtum þeirra að miklu leiti mið af þróun kröfu lengsta flokksins.   “Við teljum það þó ólíklegt að hann taki svo stórt stökk og teljum ráðlegt fyrir sjóðinn að taka einnig tilboðum í styttri flokkum. Seðlabankinn vill komast fyrir þann verðbólguþrýsting sem nú er til staðar. Lækki sjóðurinn vexti á húsnæðislánum sínum svona mikið vinnur það gegn peningastefnu Seðlabankans og eykur líkur á stýrivaxtahækkun í febrúar,” segir greiningardeildin.