Seðlabankinn hefur á rúmu einu og hálfu ári hækkað stýrivexti úr 0,75% í 6% til að kæla verðbólguna og uppspenntan fasteignamarkað. Haustið 2021 setti bankinn nýjar reglur um hámarks greiðslubyrði fasteignalána og jók eiginfjárkvaðir. Síðasta sumar var síðan hert enn frekar á þessum reglum. 

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, er þeirrar skoðunar að Seðlabankinn hafi stigið of harkalega á bremsuna á síðastliðnu ári.

„Við vorum farin að sjá markaðinn hægja á sér um mitt síðasta ár. Mér fannst sérstakt að ekki nóg með að vextir hafi verið hækkaðir skarpt að þá voru lánaskilyrðin líka þrengd í júní. Ég set spurningamerki við þá tímasetningu og hvort Seðlabankinn hafi verið að ýkja sveifluna of mikið. Að mínu mati reif bankinn mögulega full harkalega í handbremsuna, í stað þess að leyfa markaðnum að leiðrétta ójafnvægið.“

Hún telur lítið benda til þess að vextir lækki á þessu ári og telur raunar að þeir verði óbreyttir út árið, og jafnvel hækkaðir meira.

„Ég sé ekki fyrir mér að Seðlabankinn fari að lækka vexti á þessu ári, að öðru óbreyttu, og tel ólíklegt að við verðum fyrr til að lækka vexti en bandaríski og evrópski seðlabankinn. Það tekur tíma fyrir peningastefnuna að miðlast í gegnum hagkerfið og við erum ekki endilega búin að sjá áhrifin af vaxtahækkunum koma fram að fullu. Þess vegna myndi það skjóta skökku við ef Seðlabankinn færi að breyta um kúrs strax á þessu ári þegar hann hækkaði vexti síðast í nóvember.“

Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Íslandsbanka, tekur undir það að vextir verði líklega óbreyttir á fyrri árshelmingi en útilokar ekki hægar vaxtalækkanir síðar á árinu. „Við teljum vaxtahækkunarferlinu lokið en að vextir gætu lækkað hægt og rólega eftir mitt ár 2023.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Fasteignamarkaður, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.