Landsbankinn lækkar fasta vexti óverðtryggðra íbúðalána til 60 mánaða um 0,25 prósentustig, en um 0,15 prósentustig fyrir óverðtryggð íbúðalán til 36 mánaða. Jafnframt lækkar bankinn breytilega vexti óverðtryggðra íbúðalána um 0,15 prósentustig, en breytilegir vextir á öðrum óverðtryggðum útlánum lækka um allt að 0,25%, það er á yfirdráttarlánum og bíla- og tækjalánum.

Þar með lækka lægstu vextir breytilegir vextir óverðtryggðra íbúðalána úr 5,05% í 4,90%, en vextir viðbótarláns úr 6,05% í 5,90%. Með lækkuninni nú er Landsbankinn þar með kominn með, líkt og Brú lífeyrissjóður, þriðju til fjórðu lægstu vextina á óverðtryggðum íbúðalánum, eða 4,9%.

Lægstu föstu vextirnir á lánum til 36 mánaða lækka þar með úr 5,35% í 5,20%, en lægstu föstu vextirnir til 60 mánaða lækka úr 5,55% í 5,30%. Breytilegir óverðtryggðir vextir Landsbankans verða með þessu lægri en vextir Íslandsbanka sem eins og Viðskiptablaðið sagði frá 6. febrúar síðastliðin voru þá lækkaðir um 0,20 prósentustig.

Þar með deilir Landsbankinn þriðja sætinu með Brú lífeyrissjóði yfir lægstu breytilegu vextina, en ef horft er til fasta óverðtryggðra vexti er Landsbankinn í 5. sæti á eftir lífeyrissjóðunum LV, SL, Almenna og Frjálsa að því er fram kemur í Aurbjörgu . Lækkun Landsbankans nú er í samræmi við stýrivaxtalækkun Seðlabankans frá því deginum áður en Íslandsbanki lækkaði sína vexti.