Íslandsbanki spáir óbreyttum stýrivöxtum þegar peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnir um stýrivexti á miðvikudaginn, 6. febrúar, í næstu viku. Segja þeir ástæðuna vera að bæði verðbólguhorfur, og þar af leiðandi verðbólguvæntingar hafi dempast nokkuð og efnahagshorfur dökknað frá nóvemberspá Seðlabankans.

Þá hafi bankinn staðið frammi fyrir þeim valmöguleikum að „..staldra við og halda vöxtum óbreyttum eða hækka vexti um 25 prósentur“ eins og fram kemur í fundargerð peningastefnunefndar. Þá hafi einn nefndarmaður viljað hækka vextina, en hinir hafi ákveðið að halda þeim óbreyttum.

Les Íslandsbanki út úr orðalaginu „staldra við“ að hækkun vaxta gæti verið í kortunum. Síðan þá hafi svo ýmislegt komið á daginn, verðbólgumælingar voru í hóflegri kantinum í janúar, og sömuleiðis verðbólguvæntingar. Einnig séu vísbendingar um hraðminnkandi framleiðsluspennu á árinu og þar með fari þörfin fyrir peningalegt aðhald minnkandi.

Íslandsbanki segir í greiningu sinni að svo gæti farið að stýrivextirnir haldist óbreyttir út allt árið, þó svokölluð framsýn leiðsögn verði í átt til vaxtahækkunar. Má leggja út frá því að valkosturinn verði áfram á milli þess  að halda þeim þá óbreyttum eða hækka vextina.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá virðist svipaður viðsnúningur, og í raun nokkuð viðamikill, hafa átt sér stað hjá seðlabanka Bandaríkjanna, en þar hafi orðræðan snúið frá því að mögulega þurfi að hækka vexti enn meira, í átt til þess að mögulega megi vænta vaxtalækkunar.