Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hrinda í framkvæmd aðgerðum upp á um 14 milljarða króna á núvirði til að aðstoða námsmenn en samkvæmt þeim lækka bæði vextir af námslánum sem og að endurgreiðsluhlutfall á eldri námslánum LÍN verða lækkuð.

Aðgerðirnar sem ríkisstjórnin ræðst í eru eftirfarandi:

  • Vextir námslána lækka úr 1% niður í 0,4%.
  • Endurgreiðsluhlutfall lána lækkar til samræmis sem lækkar afborganir.
  • Afsláttur vegna uppgreiðslu námslána verður allt að 15% framvegis.
  • Ábyrgðarmenn á lánum í skilum sem tekin voru fyrir 2009 falla brott og jafnræði þannig tryggt.

Aðgerðirnar nú byggja á tillögum starfshóps sem forsætisráðherra skipaði árið 2019 um endurskoðun á reglum vegna endurgreiðslna námslána. Hópurinn var skipaður í tengslum við kjaraviðræður á opinberum markaði.

Ákvörðunin nú var ekki kynnt á hefðbundnum blaðamannafundi heldur kynntu þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmála- og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tillögurnar á myndbandi .

Hér má sjá myndbandið sem er á youtube:

Aðilar vinnumarkaðarins bentu á að lántakar greiddu um 4% af launum sínum í afborganir af námslánum á ári eða sem samsvaraði u.þ.b. einum útborguðum mánaðarlaunum á ári.
Þessi byrði hafi reynst þung fyrir ungt fólk sem er að koma sér þaki yfir höfuðið og hasla sér völl á vinnumarkaði.

Starfshópinn skipuðu Haraldur Guðni Eiðsson, tilnefndur af forsætisráðherra, Agnes Guðjónsdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðherra, Georg Brynjarsson, tilnefndur af Bandalagi háskólamanna, Lilja K. Sæmundsdóttir, fyrir hönd iðnaðarmannafélaga og Steingrímur Ari Arason, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðherra.