*

sunnudagur, 26. september 2021
Innlent 15. apríl 2020 12:01

Vextir námslána lækkaðir úr 1% í 0,4%

Stjórnvöld grípa til aðgerða fyrir námsmenn upp á 14 milljarða króna. Fella niður ábyrgðarmenn og gefa 15% afslátt af uppgreiðslu.

Ritstjórn
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri Grænna stofnaði starfshópinn sem komu fram með tillögurnar sem nú er verið að fara eftir.
Gígja Einars

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hrinda í framkvæmd aðgerðum upp á um 14 milljarða króna á núvirði til að aðstoða námsmenn en samkvæmt þeim lækka bæði vextir af námslánum sem og að endurgreiðsluhlutfall á eldri námslánum LÍN verða lækkuð.

Aðgerðirnar sem ríkisstjórnin ræðst í eru eftirfarandi:

  • Vextir námslána lækka úr 1% niður í 0,4%.
  • Endurgreiðsluhlutfall lána lækkar til samræmis sem lækkar afborganir.
  • Afsláttur vegna uppgreiðslu námslána verður allt að 15% framvegis.
  • Ábyrgðarmenn á lánum í skilum sem tekin voru fyrir 2009 falla brott og jafnræði þannig tryggt.

Aðgerðirnar nú byggja á tillögum starfshóps sem forsætisráðherra skipaði árið 2019 um endurskoðun á reglum vegna endurgreiðslna námslána. Hópurinn var skipaður í tengslum við kjaraviðræður á opinberum markaði.

Ákvörðunin nú var ekki kynnt á hefðbundnum blaðamannafundi heldur kynntu þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmála- og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tillögurnar á myndbandi.

Hér má sjá myndbandið sem er á youtube:

Aðilar vinnumarkaðarins bentu á að lántakar greiddu um 4% af launum sínum í afborganir af námslánum á ári eða sem samsvaraði u.þ.b. einum útborguðum mánaðarlaunum á ári.
Þessi byrði hafi reynst þung fyrir ungt fólk sem er að koma sér þaki yfir höfuðið og hasla sér völl á vinnumarkaði.

Starfshópinn skipuðu Haraldur Guðni Eiðsson, tilnefndur af forsætisráðherra, Agnes Guðjónsdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðherra, Georg Brynjarsson, tilnefndur af Bandalagi háskólamanna, Lilja K. Sæmundsdóttir, fyrir hönd iðnaðarmannafélaga og Steingrímur Ari Arason, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðherra.