Vextir í útboði Seðlabankans á innstæðubréfum, sem fór fram í morgun, voru að meðaltali 10,21%. Bankinn seldi jafnframt öll bréf sem voru í boði, alls fyrir 30 milljarða króna.

Vextirnir endurspegla þau kjör sem innlánsstofnunum bjóðast í Seðlabankanum og leggur grunninn að vaxtastiginu hér á landi. Hámarksvextir á innstæðubréfum voru hækkaðir í 10,25% við síðustu vaxtaákvörðun Seðlabankans á fimmtudaginn og því má segja samkvæmt þessu að virku stýrivextir bankars hefðu verið hækkaðir. Áður voru hámarksvextir á innstæðubréfum 10%.

Í Peningamálum, sem gefin voru út samhliða stýrivaxtaákvörðuninni á fimmtudaginn, segir: „Eftir að útgáfa innstæðubréfa Seðlabankans hófst á ný undir lok september á vöxtum á bilinu 9,5% til 10% má segja að virkir stýrivextir hafi legið á því bili.“  Samkvæmt þessu lækkaði Seðlabankinn ekki virka stýrivexti á fimmtudaginn heldur jók vaxtaaðhald sitt frekar.